Heimildir og lýsing gagna

Friðrik IV. Danakonungur sendi rannsóknarnefnd til Íslands árið 1702 til að gera úttekt á ástandi lands og þjóðar vegna harðinda og hungurs sem hrjáði landsmenn. Í nefndinni voru Árni Magnússon og Páll Jónsson Vídalín og létu þeir taka saman manntal 1703, kvikfjártal 1703 og jarðabók 1702–1714. Þessar skýrslur veita einstaklega nákvæmar upplýsingar um lífskjör Íslendinga og á þeim byggist gagnagrunnurinn.

Manntalið 1703

Manntalið 1703 er eitt elsta varðveitta manntal í heimi sem geymir upplýsingar um nöfn allra íbúa lands, aldur þeirra, kyn og stöðu. Sýslumönnum var falin framkvæmd manntals og var það tekið á tímabilinu desember 1702 til 1703 og skiluðu þeir gögnum á Alþingi í júlí 1703. Framkvæmd manntalsins tókst vel þótt fundist hafi nokkrar misfellur í skráningu einstaklinga og býla. Manntalsgögnin eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Manntalið er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands.

Kvikfjártal

Kvikfjártal var tekið samhliða manntalinu. Í því átti að geta bústofns á hverju býli og eigenda hans og til¬greina hvað af fénu væri „jarðarinnstæða“ (fé sem ábúandi tekur á leigu af jarðeiganda) og hvað eign ábúandans. Skráning kvikfjár var afar mis¬jöfn, ítarlegastar eru skýrslur þar sem skráður er aldur og ásigkomulag fénaðar, leigufé og fóðrun fjár fyrir aðra. Aðeins hafa varðveist skýrslur úr 102 af 163 hreppum, eða tæp 63% hreppa¬skýrslna. Skýrslur vantar alveg úr Hnappadalssýslu og aðeins ein hrepps¬skýrsla hefur varðveist úr Dalasýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu og Eyjafjarðarsýslu hverri um sig. Kvikfjártalið er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands og þar er nú unnið að útgáfu þess.

Jarðabók

Jarðabók var stærsta verkefni Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Með hverri jörð áttu að fylgja lýsing, nafn jarðar og ábúanda hennar, verðmæti, leigugjald, leigukúgildi og kvaðir þær sem á jörðinni hvíldu. Tilgreina skyldi bústofn bænda og hvað jörðin gæti borið mikið. Við hverja jörð átti að tilgreina fjölda húsmanna og hjáleigubænda á jörðinni, landskuld þeirra og aðrar álögur. Einnig átti að skrá eyðijarðir og orsakir þess að þær höfðu farið í eyði. Jarðabókin er því ekki fasteignaskrá eins og eldri jarðabækur heldur nákvæm jarðalýsing. Samning jarðabókarinnar hófst 1702 en og lauk ekki fyrr en 1714. Jarðabókin er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands.